Færsluflokkur: Bloggar

Ekki er allt sem sýnist.

Það er þekkt í leiklistarsögunni að margir framúrskarandi gamanleikarar hafa þjáðst af þunglyndi. Þetta þykir mörgum óeðlilegt. Gamanleikarar eiga alltaf að vera í góðu skapi. Ekki er allt sem sýnist. Nú lesum við um könnun sem leiðir í ljós að þær menningarstofnanir sem helst eiga að gleðja okkur og lyfta andanum, Þjóðleikhúsið, Íslenski dansflokkurinn og Listasafn Íslands, búa við afleitan starfsanda. Óánægja starfsmanna er mikil og virðist sama hvað um er spurt; s.s. launakjör, trúverðugleika stjórnenda eða álag og kröfur, allt er langt undir meðallagi og í flestum atriðum eru þessir gleðigjafar í neðstu sætunum. Þjóðleikhússstjóri segir ástandið á sínum vinnustað skýrast aðallega af miklu ryki og hávaða vegna viðgerða á byggingunni. 

Jón er farinn heim

   Mig minnir að það hafi verið í landsleik í fótbolta árið 1977 að Inga Birni Alberssyni hafi, sem varamanni, verið skipt inn á og hann síðan tekinn út af skömmu síðar. Mér er þetta minnisstætt, þótt ég sé í sjálfu sér enginn sérstakur fótboltaáhugamaður, vegna þess að þetta þótti mjög sérstök skipting; að taka varamann út af skömmu eftir að hann kemur inn á . Venjulega leika varamenn leikinn á enda ef þeir eru settir inn á ef ekki koma til meiðsli eða eitthvað óeðlilegt. Og þetta ku ekki vera mjög uppbyggjandi fyrir leikmenn, reyndar er mér sagt að þetta sé mjög sjaldan gert í venjulegum leikjum og þetta tilvik með Inga Björn Albertsson sé einsdæmi í landsleik. Þessi einkennilega innáskipting kom mér í hug nú þegar Jón Sigurðsson hefur verið tekinn út af. Hann var settur inn á þegar talsvert var liðið á seinni hálfleik og voru margir áhorfendur hissa á því hann hafði ekki æft í mörg ár. Það kom líka fljótt í ljós. Hann átti afleitan leik, mikið um mislukkaðar sendingar þann stutta tíma sem hann fékk að vera inn á - komst aldrei í takt við leikinn. Hann fékk dæmt á sig víti sem varð til að liðið hans tapaði illa. Hann var tekinn út af í kjölfarið. Jón kemst örugglega ekki oftar í liðið. Jón er farinn heim.

 


Auglýsingastofan sér að sér.

  Það er gott að heyra í fréttum að auglýsingastofan Himinn og haf hefur ákveðið að taka úr umferð auglýsinguna með Lalla Johns, sem ég minntist á í bloggi í gær. Þetta voru smekklausar og niðurlægjandi auglýsingar. Það mættu fleiri að ósekju hverfa.

Íslenskar sjónvarpsauglýsingar.

  Ekki veit ég hvort það eru ellimörk og önnur hrörnunareinkenni eða bara eðlislægt fúllyndi sem orsakar það að mér finnst íslenskum sjónvarpsaugýsingum hafa farið aftur, hin síðari ár. Þær eru ófyndnari, ómarkvissari og almennt leiðinlegri en þær voru. Þetta er að mestu orðinn innihaldslaus tæknisperringur. Gott dæmi um þetta eru auglýsingar frá Símanum. Eftir að Síminn var einkavæddur hefði mátt búast við að þéttar væri haldið um budduna en var í tíð Landssímans. En nú leikur einhver auglýsingastofan lausum hala og gerir hverja auglýsingaröðina eftir aðra - tæknilega vel unnar en hrútleiðinlegar. Húmor er sjaldnar notaður sem leið að kaupendum og fyrir vikið verða þær æ flatari og safaminni. Og það er ekki vegna þess að markaðsfræðingar hafi komist að því að húmor seldi ekki. Öðru nær. Ekki þarf annað en að sjá sjónvarpsauglýsingar á erlendum stöðvum til að sannfærast um að húmorinn er í fullu gildi.  En það hefur sprautast svo mikill fjöldi kvikmyndatæknimanna úr skólum síðustu árin og eitthvað verða þeir að gera blessaðir mennirnir. Ekki gera allir bíó. Og auglýsingin með Lalla Johns er sorgleg og dæmigerð fyrir hugmyndaleysið sem ríkir í greininni. 

 


Einfalt og þægilegt

  Þegar ég var lítill - eða öllu heldur þegar ég var minni en ég er í dag - þá var með mér í skóla drengur sem þótti ákaflega bráðger og snemmþroska. Hann hafði skoðanir á öllu og lét þær óspart í ljós og var aldrei í vafa um hið rétta í hverju máli. Þetta einkennir marga unglinga sem skortir lífsreynslu og þroska til að sjá fleiri hliðar á hverju máli. Lífssýn þeirra er oft svart/hvít og fleiri litir ekki til umræðu. Strax um átta ára aldur hafði Olli t.d. ákveðnar skoðanir á stjórnmálum og þær voru ekkert flóknar og voru tvenns konar; þær voru réttar og þær voru rangar. Ekkert þar á milli. Þessi drengur var kallaður Olli ofviti og fór í hundana þegar hann fullorðnaðist. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur alltaf minnt mig á Olla ofvita. Og mér finnst þetta viðhorf Olla og Hannesar - að hafa hlutina ekki of flókna - vera öfundsvert. Það auðveldar svo margt ef hlutirnir eru ekki mjög flóknir. Sérstaklega í flóknum málum þegar ekkert er eins og það sýnist. En þá eru Hannes og Olli bara með tvo valkosti; þann rétta og þann ranga. Vondir menn og góðir menn, rétt stjórnmálaskoðun og röng stjórnmálaskoðun. Er þetta ekki dásamlega einfalt og aðgengilegt? Og síðan þessi einlægi og ákafi sannfæringakraftur sem fylgir tjáningunni, sem er svo flottur að maður heldur ekki vatni né vindi. Í hádegisviðtali á dögunum var Hannes að tala um að nú væri Ingibjörg Sólrún loks orðin alvöru stjórnmálamaður - þroskaður stjórnmálamaður - ekki þessi óþroskaði vindhani sem hún hafi verið áður. Þessi skyndilegi þroski Ingibjargar Sólrúnar hefur sennilega átt sér stað eftir að hún stofnaði til náinna kynna við flokksbræður Hannesar. Það er hægt að þroskast í pólitík á örskömmum tíma- ef maður þroskast í rétta átt. En þá kom efinn. Þá skaut upp í hugann þessum óþægilega möguleika að e.t.v. gætu verið fleiri hliðar á málinu en þessar tvær gömlu. Ingibjörg Sólrún - sem á að baki glæsilegri feril í stjórnmálum en flestir ef ekki allir flokksbræður Hannesar - var að hans sögn vanþroskaður vindhani í pólitík þegar hún vann borgina, ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Þá spyr maður: Á hvaða þroskastigi voru andstæðingar Ingibjargar Sólrúnar og flokksbræður Hannesar, sem hún sigraði, ekki í einum kosningum heldur þrennum.      

Sáluhjálparsveitin

Ég hef ákveðið að fara að ráðum vinar míns sem hefur bloggað um skeið og lætur vel af því. Hann telur sig annan og betri mann eftir að hann tók upp á því. Fúllyndi hans ásamt þrálátri geð- og mannvonska fær loksins heppilegan farveg. Fjölskyldan er lukkuleg og hann sjálfur heldur sig vera að leggja eitthvað stórkostlegt til umræðunnar. Sannast sagna held ég að það lesi þetta mjög fáir - í besta falli hans allra nánustu. En þetta er sáluhjálp og hún er mikils virði.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband