Einfalt og þægilegt

  Þegar ég var lítill - eða öllu heldur þegar ég var minni en ég er í dag - þá var með mér í skóla drengur sem þótti ákaflega bráðger og snemmþroska. Hann hafði skoðanir á öllu og lét þær óspart í ljós og var aldrei í vafa um hið rétta í hverju máli. Þetta einkennir marga unglinga sem skortir lífsreynslu og þroska til að sjá fleiri hliðar á hverju máli. Lífssýn þeirra er oft svart/hvít og fleiri litir ekki til umræðu. Strax um átta ára aldur hafði Olli t.d. ákveðnar skoðanir á stjórnmálum og þær voru ekkert flóknar og voru tvenns konar; þær voru réttar og þær voru rangar. Ekkert þar á milli. Þessi drengur var kallaður Olli ofviti og fór í hundana þegar hann fullorðnaðist. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur alltaf minnt mig á Olla ofvita. Og mér finnst þetta viðhorf Olla og Hannesar - að hafa hlutina ekki of flókna - vera öfundsvert. Það auðveldar svo margt ef hlutirnir eru ekki mjög flóknir. Sérstaklega í flóknum málum þegar ekkert er eins og það sýnist. En þá eru Hannes og Olli bara með tvo valkosti; þann rétta og þann ranga. Vondir menn og góðir menn, rétt stjórnmálaskoðun og röng stjórnmálaskoðun. Er þetta ekki dásamlega einfalt og aðgengilegt? Og síðan þessi einlægi og ákafi sannfæringakraftur sem fylgir tjáningunni, sem er svo flottur að maður heldur ekki vatni né vindi. Í hádegisviðtali á dögunum var Hannes að tala um að nú væri Ingibjörg Sólrún loks orðin alvöru stjórnmálamaður - þroskaður stjórnmálamaður - ekki þessi óþroskaði vindhani sem hún hafi verið áður. Þessi skyndilegi þroski Ingibjargar Sólrúnar hefur sennilega átt sér stað eftir að hún stofnaði til náinna kynna við flokksbræður Hannesar. Það er hægt að þroskast í pólitík á örskömmum tíma- ef maður þroskast í rétta átt. En þá kom efinn. Þá skaut upp í hugann þessum óþægilega möguleika að e.t.v. gætu verið fleiri hliðar á málinu en þessar tvær gömlu. Ingibjörg Sólrún - sem á að baki glæsilegri feril í stjórnmálum en flestir ef ekki allir flokksbræður Hannesar - var að hans sögn vanþroskaður vindhani í pólitík þegar hún vann borgina, ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Þá spyr maður: Á hvaða þroskastigi voru andstæðingar Ingibjargar Sólrúnar og flokksbræður Hannesar, sem hún sigraði, ekki í einum kosningum heldur þrennum.      

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nokkuð til í þessu hjá þér en...borgarmálapólitík og landsmálapólitík, þar er töluverður munur á. Ég man þegar Davíð Oddson skellti sé í landsmálapólitíkina úr borgarstjórastólnum, þá voru margir sem sögðu að hann ætti ekkert í hákarlana á Alþingi. Þar yrði fljótlega slegið á puttana á honum og lækkaður í honum rostinn. Hann afsannaði það reyndar fljótt. Fólk er misfljótt að þroskast í hlutverkum sínum og sumir jafnvel þroskast aldrei neitt að ráði. Það eru ákveðin þroskamerki á Ingibjörgu Sólrúnu og þegar hún nær upp sjálfstraustinu sem hún hafði á fyrrihluta borgarstjóratímabili sínu, þá er hún til alls vís

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.5.2007 kl. 17:35

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll. Gaman að fá þig hér á bloggið karl. Gamal goðsögnin í gríninu. En nánar að þessum pistli þínum. Alveg hárrétt! Hannes H. hefur frelsast svei mér þá. Hann vill að allir verði vinir og dýrin í skóginum klóra bakið á hvort öðru. Já, er þetta ekki magnað, að Vindhani, verður að Hænu, sem verpir gulleggjum. Já er þetta ekki stórkostleg þegar menn, eins og Hannes sem var örugglega með ISG á píluspjaldinu hjá sér, sé nú orðin einn heitasti stuðningsmaður,"Þroskaðrar konu."

Þetta er alveg dásamlegt, og þegar þetta er skrifað var eins og þau væru nýgift, blessunin... ER þetta ekki yndislegt þegar allt verður svona fallegt.

Takk fyrir mig, Haltu áfram að blogga.... þurfum léttar athugasemdir. Áttu meira um Olla?

Sveinn Hjörtur , 21.5.2007 kl. 18:35

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir pistil.  Velkominn Júlíus.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2007 kl. 20:06

4 Smámynd: Jens Guð

Þetta er góð pæling.  Reyndar má greina töluverða þroskakippi hjá Hannesi á gamalsaldri.  Þó hann eigi langt í land með - og muni aldrei ná - að standa jafnfætis ISG í pólitískum þroska

Jens Guð, 21.5.2007 kl. 21:03

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér finnst nú eiginlega að fáir menn hafi farið jafn eftirminnilega í hundana og Hannes Hólmsteinn. Maðurinn er gæddur sjaldgæfum yfirburðagáfum, góðum húmor, ofurmannlegri starfsorku samfara einbeitni og eljusemi eins og mest þekkist.

Útkoman er fræðimaður sem er svo fyrirséður í allri sinni boðun að engir nenna að lesa eða hlýða á nema þeir einir sem áður voru sannfærðir. Það er nefnilega með öllu óhugsandi að brjóta til mergjar veigamikil álitaefni ef menn hefja vinnuna með fyrirfram ákveðina niðurstöðu. Ég man varla eftir að Hannes hafi leyft sér að taka til máls í þessa veru án þess að vísa út og suður á þá lærifeður frjálshyggjunnar sem gáfu honum trúna.

Svona ástand heyrir til mikillar fötlunar í mínum huga. Og ég sé alveg óskaplega eftir öllum þeim stóru menningarveislum sem þessi þjóð missti af gegnum þessi skelfilegu örlög mannsins.

Hugsið ykkur ef Hannes H. væri frjáls maður og leyfði frjórri hugsun að flæða hindrunarlaust í stað þess að ávarpa okkur út úr því skelfilega búri pólitískra fræða þar sem hann lokaðist inni og að líkindum ævilangt?

Árni Gunnarsson, 21.5.2007 kl. 21:54

6 identicon

Velkominn í bloggvinahópinn Júlíus  Sko - Það er þetta með hann Hannes. Ég hef tekið eftir því að hann Hannes er alltaf eitthvað svo dásamlega sæll og glaður með sinn Sjálfstæðisflokk  Mamma hans kenndi mér handavinnu í gamla daga, yndisleg kona og alltaf glöð, hún var framsóknarkona. Hannes er þannig eiginlega ofurglaður sjálfsóknarmaður. Kannski er það þessi blanda sem gerir lífið svona „einfalt“ - hlutina svona „rétta“ og menn svona „þroskaða“ - veit ekki   

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband