Íslenskar sjónvarpsauglýsingar.

  Ekki veit ég hvort það eru ellimörk og önnur hrörnunareinkenni eða bara eðlislægt fúllyndi sem orsakar það að mér finnst íslenskum sjónvarpsaugýsingum hafa farið aftur, hin síðari ár. Þær eru ófyndnari, ómarkvissari og almennt leiðinlegri en þær voru. Þetta er að mestu orðinn innihaldslaus tæknisperringur. Gott dæmi um þetta eru auglýsingar frá Símanum. Eftir að Síminn var einkavæddur hefði mátt búast við að þéttar væri haldið um budduna en var í tíð Landssímans. En nú leikur einhver auglýsingastofan lausum hala og gerir hverja auglýsingaröðina eftir aðra - tæknilega vel unnar en hrútleiðinlegar. Húmor er sjaldnar notaður sem leið að kaupendum og fyrir vikið verða þær æ flatari og safaminni. Og það er ekki vegna þess að markaðsfræðingar hafi komist að því að húmor seldi ekki. Öðru nær. Ekki þarf annað en að sjá sjónvarpsauglýsingar á erlendum stöðvum til að sannfærast um að húmorinn er í fullu gildi.  En það hefur sprautast svo mikill fjöldi kvikmyndatæknimanna úr skólum síðustu árin og eitthvað verða þeir að gera blessaðir mennirnir. Ekki gera allir bíó. Og auglýsingin með Lalla Johns er sorgleg og dæmigerð fyrir hugmyndaleysið sem ríkir í greininni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Já, það er rétt. Auglýsingar byggjast orðið á hraða, nýjustu tækni í grafík en húmorslausar. Ég man þá tíð að gaman var að horfa á auglýsingar. Krökkunum mínum fannst þær spennandi og fyndnar. Eins og auglýsingin með Ladda þegar hann stekkur út í tré og segir "Tengdó" og flýr og fær sér svo Thule! Einu fyndnu auglýsingar síðustu ára var þegar Færeyingurinn lék í Domino´s auglýsingunum og dönsku verkamennirnir sem auglýstu Thule-bjórinn. Það eru svona síðustu auglýsingarnar með húmor. Hafi lesendur aðgang að norsku sjónvarpsstöðvunum NK1 eða NK2 þá eru norskar auglýsingar einfaldar og byggja nær eingöngu á húmor. Upp með húmorinn!

Sigurlaug B. Gröndal, 22.5.2007 kl. 14:26

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér fannst reyndar auglýsingin með Lalla Johns sýna hugmyndaflug...en þeir skutu sig í fótinn með smekkleysi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.5.2007 kl. 23:51

3 Smámynd: Jens Guð

  Ég lærði auglýsingagerð í MHÍ ´76-´80.  Vann síðan á auglýsingastofum næstu 14 ár.  Nokkuð fram á níunda áratuginn voru sjónvarpsauglýsingar afskaplega frumstæðar.  Þær voru nánast bara sjónrænar útvarpsauglýsingar. 

  Sjónvarpsauglýsingar tóku kipp fram á við þegar inn á markaðinn kom ungur kvikmyndatökumaður,  Kalli að nafni (man ekki eftirnafnið).  Tökurnar hjá honum voru einfaldar og flottar og klippingar hraðari en við áttum að venjast.  Vinnubrögð hans virkuðu eins og vítamínsprauta fyrir íslenskar sjónvarpsauglýsingar.

  Sennilega var þetta um miðjan níunda áratuginn.  Um svipað leyti var farið að gera út á húmor.  Því miður verð ég að taka undir að sjónvarpsauglýsingar í dag eru bölvað drasl.  Tækniflipp út og suður en lítið um snjöll hnitmiðuð skilaboð. 

  Eftir 13 ára fjarveru úr auglýsingabransanum þekki ég ekki hvað veldur.  Ég hef grun um að mikið af amatörum leiki þarna lausum hala.  Tæknilega sinnað fólk sem getur gert "allt" á tölvur,  á alltaf nýjustu forritin,  en hefur enga þekkingu á lögmálum markaðsfræðinnar. 

  Ég hef orðið var við að menn sem hafa enga þekkingu á auglýsingafræðum vinna sem textahöfundar á auglýsingastofum.  Það er í lagi ef á stofunni er líka markaðsfræðingur sem getur beint hugmyndavinnu textahöfundarins í réttan farveg.  Mér virðist hinsvegar að svo sé ekki.

Jens Guð, 28.5.2007 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband