Færsluflokkur: Bloggar
5.1.2009 | 12:33
Af þjóðrembu og andlegum vindverkjum
Nú er mikið talað um að byggja þurfi nýtt Ísland. Treysta gömlu gildin og horfa til þjóðlegra verðmæta. Halda á lofti því sérstaka og verðmæta sem við eigum og höfum misst sjónar á. Þá er nauðsynlegt að leggja af þann barnalega þjóðrembing sem við höfum tamið okkur undanfarin gleðskaparár; Ísland er stórasta land í heimi. Þjóðremban er hættuleg og hefur átt sinn þátt í að leiða okkur á þann stað sem við erum á í dag. Þennan skelfilega stað. Miklu frekar eigum við að reyna að horfa með gagnrýniaugum á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna .
Og hvað erum við? Ja,við erum dugleg þjóð. Heldur ekkert vitlausari en aðrir og sæmilega upplýst og menntuð. Og við eigum vissulega framúarskarandi fólk í einstökum greinum sem jafnast á við það fremsta hjá öðrum þjóðum. En hjá okkur koma slíkir einstaklingar ekki fram nema á margra ára fresti - og fáir - í fullu samræmi við fámenni þjóðarinnar. Þjóðremban var farin að telja okkur trú um að hér á landi væru hlutfallslega miklu fleiri snillingar en flest fjölmennari samfélög gætu státað af. Við værum einstök afburðaþjóð. Til dæmis um það var fólki var talin trú um að hver einasti jakkafataklæddur unglingspiltur með örlitla viðskiptamenntun væri fjármálaséní á heimsvísu. Við vorum ein gáfaðasta og hamingjusamasta þjóð veraldar. Og þeir sem ekki voru tröllvaxnir til höfuðsins hefðu afburða kosti á öðrum sviðum. Hér væri fallegasta kvenfólk í heimi og sterkustu karlarnir. Það væri íslenska loftið sem væri svo heilnæmt og íslenska fæðið gerði okkur að ofurmönnum. Íslenskur matur væri sá eini sem boðlegur væri og allt útlenskt fæði baneitrað óæti. Við eigum enga samleið með öðrum þjóðum, við erum svo sérstök - sennilega svo miklu fremri á flestum sviðum. Við erum eyland í fleiri en einum skilningi.
Það er ekki þannig. Hættum þessum fíflaskap. Sumt hefur tekist ágætlega í samfélaginu okkar, en annað miður. Sumt mjög illa. Við Íslendingar erum bara venjulegar manneskjur. Ekkert hlutfallslega stórkostlegri en þær nágrannaþjóðir sem eru skyldastar okkur. Hvað ætti susum að hafa gert okkur að slíkum ofurmönnum ?
En við eigum fallegt land sem orkar sterkt á alla sem kynnast því. Jafnvel þótt flest náttúrufyrirbrigði sem finnast á landinu og þykja fallegust , séu til annarsstaðar á jörðinni þá er óhætt að fullyrða skrumlaust að Ísland er að mörgu leyti einstakt. Á góðum degi er Ísland paradís á jörðu. Við eigum auðvitað að vera stolt af því og umgangast það af virðingu.
Nú þegar þjóðin er að taka sig saman og rísa upp á lappirnir eftir alvarlega brotlendingu þá fer ekki hjá því að hún leggist í einhverkonar endurmat á því sem skiptir máli og er henni raunverulega einhvers virði. Reyna hugsanlega að skapa sjálfsmynd sem gæti verið nær raunveruleikanum en sú sem við höfum haldið á lofti. Vekja athygli á þjóðlegum verðmætum. Kannski er ekki um svo auðugan garð að gresja. Hér eru hefðir fáar og ekki stórkostlegar þegar borið er saman við grónar og menningarþjóðir. Við eigum bókmenntirnar. Þær byggingar sem við getum sýnt erlendum gestum okkar eru engar glæsihallir. Hrörlegu torfbæirnir eru kannski vitnisburður um það sem við getum verið stoltust af; að hafa þraukað í þessu erfiða landi í ellefu hundruð ár og tekist að byggja upp þjóðfélag sem stenst þokkalega samanburð við nágrannaríkin. Við höfum sigrast á erfiðri náttúru og haldið lífi. Það er okkar stóri sigur. Og síðast en ekki síst; við eigum íslenska hestinn. Hann er einstakur. Gleðilegt ár!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2008 | 18:17
Spurt er.....
Þegar mikið liggur við benda blaða- og fréttamenn oft á mikilvægi stéttar sinnar með því að kalla hana hið fjórða vald samfélagsins - hvorki meira né minna. Skemmst er að minnast deilunnar sem fylgdi fjölmiðlafrumvarpinu og fagurgalans sem blaðamenn höfðu uppi um starf sitt og mikilvægi þess fyrir samfélagið. Frjálsir, öflugir og upplýsandi fjölmiðlar væru ein af fjórum grunnstoðum samfélagsins. Spurt er ; hvar voru hinir ágengu og upplýsandi blaða- og fréttamenn í aðdraganda þess ástands sem nú ríkir á Íslandi? Á einum mánuði hefur Ísland hrunið nánast til grunna. Og nú hefur þegar komið í ljós að ýmsar bjöllur voru farnar að hringja sem gáfu til kynna að vá var í aðsigi og gáfu fjölmiðlafólki fulla ástæðu til að skoða stöðuna frekar og meta aðstæður gaumgæfilega. Gífurlegir hagsmunir voru í húfi. Hvað brást? Skýrslur voru tiltækar sem gáfu til kynna að ástandið var mjög alvarlegt. Hvar voru hinir upplýsandi rannsóknarblaðamenn, sem telja sig fjórða vald samfélagsins? Hvers vegna gáfu þeir ekki almenningi viðvörun með upplýsandi umfjöllun? Er ekkert gagn af íslenskum blöðum? Áttum við frekar að taka mark á erlendum dagblöðum ? Þau reyndust miklu nær því að meta stöðuna rétt. Eru íslenskir fréttamenn bara hæfir til að segja fréttir af atburðum sem þegar hafa átt sér stað? Hvernig stóð á þessari vanhæfni eða meðvirkni? Er hugsanlegt að hagsmunir íslenskra fjölmiðla skarist of mikið við persónur og leikendur í hinum dramatísku átökum sem þjóðin stendur frammi fyrir? Er ekki fullt tilefni fyrir íslenska fjölmiðlamenn til að skoða sína stöðu í ljósi atburða síðustu vikna? Þeir hafa brugðist hlutverki sínu með blindri þjónkun við eigendur sína og umráðamenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2007 | 22:26
Í sannleiksást og friði
Það skortir talsvert á fagmennsku í störfum blaða- og fréttamanna. Oft birtast í fjölmiðlum hávaðasamar fréttir og frásagnir af hneykslanlegum hlutum og látið er eins og efni standi til siðbótar - að tilstuðlan fjórða valdsins. Siðleysið hroðalegt. Áræðið og sjálfstraustið skortir ekki. Málin eru opnuð og rótast og gramsað í hlutunum ýjað að ýmsu og margt gefið í skyn en ekkert fullyrt. Hlutirnir gerðir tortryggilegir og leitt að því líkur að um lögbrot sé að ræða. Stundum er áreiðanlega bullandi lögleysa og sullandi siðleysi á ferðinni en það fæst sjaldnast staðfest. Umfjöllun íslenskra fjölmiðla um mörg lagaleg og siðferðileg álitamál er oftast ákaflega yfirborðsleg. Það skortir úthald og getu til að fylgja málum til enda ekki bara slengja fram fullyrðingum og láta síðan slag standa. Þetta komast íslenskir fjölmiðlar upp með og þegar þá brestur þrek og geta til að klára og komast að niðurstöðu segjast þeir vera að skapa umræðu og það sé svo mikilvægt að það réttlæti jafnvel dylgjur og hálfkveðnar vísur. Í flestum tilfellum eru þetta unglingarnir á fjölmiðlunum sem eru að reyna að skapa sér nafn og fara offari í vinnugleðinni. En oft eru það líka reyndir blaðamenn sem haldnir eru þekktu mannkynsfrelsaraheilkenni og telja sig, og bara sig, kunna skil á hinum eina sannleika. En ritstjórar eiga að vísa veginn. Í flestum tilfellum eru þetta sem betur fer - ómerkileg dægurmál sem reynt er að blása upp en af og til koma upp alvarleg mál og þá reynir á getuna. Það þarf ekki að fara langt aftur til að finna dæmi. Nú er t.d. fyrirferðarmikð mál þar fjallað er um andlát ungrar stúlku sem var til meðferðar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Eftir því sem skilja má af fréttum eru málsatvik þau að stúlkan lá inni vegna sýkingar sem hún varð fyrir í útlöndum. Hún ku hafa verið fyrrum fíkniefnaneytandi en verið utan neyslu um nokkurt skeið. Síðan gerist það að stúlkan lést á sjúkrahúsinu - af völdum eiturlyfja þar sem hún var í meðferð vegna sýkingar. Faðir stúlkunnar fullyrðir að eiturlyfjasali á sama sjúkrahúsi hafi selt henni fíkniefni inni í reykherbergi og skammturinn hafi orðið dóttur sinni að fjörtjóni. Hann styður fullyrðingu sína ýmsum rökum og m.a. þeim að rekja megi símtöl úr síma dóttur sinnar til þessa sölumanns skömmu fyrir atburðinn. Forráðamenn sjúkrahússins telja ekki loku fyrir það skotið að eiturlyfjaviðskipti geti átt sér stað meðal sjúklinga. Það er margt í þessu máli sem þarfnast skoðunar og eftirfylgni. Hér er ekki nægilegt að þyrla upp moldviðri og láta svo þar við sitja. Lést stúlkan af völdum fíkniefna sem seld eru inni á sjúkrahúsinu? Hvernig getur fagfólk sjúkrahússins komist hjá því að verða vart við slíkt? Hvernig stendur á því að málflutningur lögreglu stangast á við fullyrðingar föður stúlkunnar? Málið getur auðvitað verið persónulegt og viðkvæmt og ekki er alltaf allt sem sýnist í hlutum sem þessum. Jafnvel þótt svo kunni að vera að hér séu miklar og erfiðar tilfinningar sem hugsanlega rugli dómgreind - var þá nokkur ástæða til að fara af stað með þeim hætti sem gert var?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2007 | 17:56
Ófriðurinn á Akureyri
Séreinkennlileg afstaða Akureyringa til útihátíða. Þeir sækjast eftir því að lokka fólk til bæjarins með allskonar uppákomum og hátíðahöldum, sem virðast sakleysislegar s.s. barna- og fjölskylduhátíðin Halló Akureyri og núna þessi nýliðna bílahátíð. Allt virðist rólegt og eðlilegt. En svo gerist eitthvað. Það virðist eins og það fari alltaf allt úr böndunum og fólk bókstaflega tryllist um leið og það kemur til Akureyrar. Eða svo er að skilja á lögreglu staðarins. Það logar allt í slagmálum, fylleríi og dópneyslu. Í þessum líka fallega bæ. Lögreglan fær ekki við neitt ráðið. Þarf að kalla út allt tiltækt varalið og gekk illa að fá menn til starfa. Margir voru hræddir og sögðust ekki þora. Öðruvísi mér áður brá. Af hverju er svona erfitt að halda friðinn á Akureyri? Ég held að lögreglulið staðarins sé það aumasta á öllu landinu. Það heyrast aldrei svona kveinstafir frá öðrum bæjarfélögum, sem þurfa að halda utan miklu erfiðari samkomur en þetta. Ef kirkjuþing yrði haldið á Akureyri mundi lögreglan á staðnum ekki ráða við það. Það mundi leysast upp í hópslagsmál á torginu og fjöldahandtökur. Að ég ekki tali um dópneysluna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.6.2007 | 13:06
Framsóknarmaðurinn - tegund í góðu jafnvægi
Mér hefur ævinlega verið hlýtt til framsóknarmanna. Ég er alinn upp á framsóknarheimili og hef kynnst mörgum framsóknarmönnum . Þeir eru yfirleitt skemmtilegir - sérstaklega karlarnir. Þeir eru léttir í skapi enda eru alvarleg stjórnmálaleg spursmál ekki að angra þá. Þeir eru léttlyndir. Framsóknarmenn segja ekki hefðbundna brandara með pönslínu. Framsóknarmenn segja sögur. Gamansögur. Þær verða oft langar og vilja fara út um víðan völl - lengjast í miklum ættfræðipælingum - með viðkomu á mörgum bæjum og enda síðan eiginlega aldrei. Það hentar líka framsóknarmönnum að enda ekki sögurnar formlega. Halda öllu opnu ef eitthvað gott skyldi reka á fjörurnar.
Framsóknarmenn eru félagslyndir og hafa gaman af því að sitja fundi. Þeir hafa ekkert sérstaklega gaman af fundarefninu. Meira gaman af spjallinu í kaffihléinu. Í fari þeirra er pólitískt kæruleysi og léttlyndi sem helgast af því að stefnan eða hugmyndafræðin veldur þeim ekki áhyggjum. Ekki svo nauið. Það þykir hins vegar mikill kostur og gefur framsóknarmanni aukna þyngd ef hann hefur á hraðbergi eins og eitt öflugt ættjarðarljóð þegar við á. Þeir eru í hjarta sínu vissir um að Ísland er best. Hér er fallegast. Hér er fallegasta kvenfólkið og gáfuðustu karlmennirnir. Óþarfi að sækja eitthvert annað. Allt samstarf og samvinna við aðrar þjóðir er varasamt. Það eru ekki nema allra víðsýnustu framsóknarmenn sem í mesta lagi hrífast af Norðmönnum. Lengra verður ekki gengið. Við erum hin útvalda þjóð. Þeir eru fullvissir um að íslenskur landbúnaður er svo langbestur að það þarf ekki að ræða það frekar. Allt það jukk sem útlendingar hafa verið að éta gegnum aldirnar er óhollusta. Stórhættulegt og fullt af skít. Guð forði okkur frá því. Ég hef verið með norðlensku framsóknarfólki í Spánarferð og sú fjölskylda fór með fullar töskur af íslensku skyri og lambakjöti. Engin áhætta tekin. Og svo eru það dalirnir og fossarnir. Betra á dauðlegi heimurinn eigi.
Á upphafsárum sínum var Framsóknarflokkurinn einskonar pólitískur armur ungmennafélagshreyfingarinnar. Þá var þörf og not fyrir flokk eins og hann. Sjálfstæðisbaráttan í algleymingi og bændur í sóknarhug. En nú eru breyttir tímar. Ungmennnafélagshreyfingin er nánast ellidauð og Sambandið horfið, bændur orðnir örfáir og Framsóknarflokkurinn því kominn af fótum fram. Verkefnalaus. Útvegar þó dyggum flokksmönnum góða vinnu og stendur vörð um erfðagóssið. Þó er nóg til af framsóknarmönnum. Framsóknarmaður er hér samheiti yfir tegundina en ekki einungis þann þrönga hóp sem styður flokk með sama nafni. Framsóknarmenn eru í öllum flokkum og auðþekkjanlegir. Flestir eru þeir auðvitað í Vinstri grænum, en þeir eru líka fjölmennir í Sjálfstæðisflokknum. Fæstir eru sennilega í Samfylkingunni enda er hún sífellt að klifa á samvinnu við aðrar þjóðir af fullkomnu ábyrgðarleysi. Framsóknarmenn telja okkur auðvitað ekkert erindi eiga með skrælingjaþjóðum Evrópusambandsins. Þeim þjóðum sem um aldaraðir höfðu lifað hámenningarlífi á meðan við gerðum okkur það enn til dundurs að týna lýsnar hvert af öðru í dimmum og saggafullum torfkofum. Við þurfum ekkert að flytja inn erlenda ómennsku. Framsóknarmenn allra flokka eru þjóðernissinnaðir íhaldsmenn sem eiga auðvelt með að tala sig upp í funheita ættjarðarást á góðum degi. Hvað sem Framsóknarflokknum líður þá verða framsóknarmenn til á meðan land byggist. Í mér blundar framsóknarmaður.
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.6.2007 | 13:17
Reykingar og hundaskítur
Stundum eru hlutir - sem eru í eðli sínu mjög líkir - metnir á gjörólíkan hátt. Nú þegar reykingabannið er gengið í gildi rifjast upp ýmsar sennur sem ég hef tekið við reykingafólk. Ein var af því tilefni að við sátum eitt sinn félagar inni á kaffistofu og enginn okkar reykti - loftið í herberginu því hreint og tært. Síðan bætist maður í hópinn og fær sér kaffibolla og gerir sig líklegan til að fá sér sígarettu. Þá fórum við þessir reyklausu að malda í móinn og benda viðkomandi á að það sé engin sanngirni í því að við fjórir þurfum að líða fyrir þennan ósið hans. Hér mundi allt fyllast af reyk og ólykt sem við kærðum okkur ekkert um. Ég benti honum á að það hefði ekki þótt við hæfi ef hann hefði komið inn og byrjað að leysa vind án afláts og ekki hætt fyrr en andrúmsloftið væri orðið óbærilegt. Þessi samlíking fannst vini okkar alveg út í hött. Ég benti honum á að sennilega væri viðrekstrargasið ekki nærri eins óhollt og tóbaksreykurinn - þó ég væri svosem ekki að hvetja hann til að taka frekar upp þann sið. Þeir sem malda í móinn núna munu innan fárra vikna þagna og eftir ár eða svo verðum við búin að gleyma því að eitt sinn voru leyfðar reykingar á veitingastöðum.
Hundum hefur fjölgað mikið í þéttbýli. Hundar af ýmsum fágætum og framandi kynstofnum eru mjög vinsæl gæludýr nú um stundir. Í sumum tilfellum hefur fólk greitt talsverða fjármuni fyrir dýrin og veitir þeim mikla athygli og á mörgum heimilum eru þeir komnir fremst í forgangsröðina - fram fyrir börnin. Þeim lýðst margt sem okkur mannfólkinu er yfirleitt ekki leyfilegt. Nágranni minn á t.d. hund sem hafður er úti í garði geltandi tímunum saman svo maður getur varla haldið uppi samræðum inni hjá sér. Og stundum bregður hann sér yfir í garð til mín til að skíta. Hvers vegna lýðst þetta hjá hundum en ekki mönnum? Ég hef hugsað um það í fullri alvöru að stökkva út í garð núna eitt góðviðriskvöldið og öskra og garga í svona klukkutíma og bregða mér svo yfir í garðinn hjá nágrannanum og leysa niður um mig og skíta. Það er hundur í mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.5.2007 | 23:55
Allt að fara til......
Bloggar | Breytt 28.5.2007 kl. 07:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.5.2007 | 02:41
Að bera sand á Kleppi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.5.2007 | 07:34
Kristrún Heimisdóttir og Staksteinar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2007 | 01:24
Mér er sama um Paris Hilton
Það líður ekki sá dagur að ekki berist fréttir af Paris Hilton. Nánast á hverjum degi flytja blöð og sjónvarp okkur fréttir af þessari stúlku. Og hvað er svona merkilegt við Paris Hilton? Áður en ég kynnti mér málið þá hélt ég að þetta væri afreksmanneskja á einhverju sviði sem hefði farið framhjá mér, eins og reyndar margt annað merkilegt. En eftir stutta rannsóknarvinnu þá komst ég að því að stúlkan er fulltrúi þess ómerkilegasta í Amerískri menningu. Hún er af auðmannafjölskyldu og hefur misst fótanna hvað eftir annað á stuttri ævi og hennar erfiðleikar og óhamingja stafar af ofdekri og auðsæld. Hún er meira og minna undir áhrifum fíkniefna eða áfengis og grófar klámmyndir af henni ganga á netinu. Nýlega var hún tekin af lögreglu vegna ölvunaraksturs og þarf að sitja í fangelsi vegna brotsins. Það mál hefur bókstaflega skekið allan hinn vestræna fjölmiðlaheim. Hver er ástæðan fyrir því að íslenskir fjölmiðlar sjá ástæðu til að flytja okkur nákvæmar fréttir af þessari nauðaómerkilegu stúlku vestur í Ameríku? Er ekki eitthvað verulega brogað við þetta?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)