Spurt er.....

  Þegar mikið liggur við benda blaða- og fréttamenn oft á mikilvægi stéttar sinnar með því að kalla hana hið fjórða vald samfélagsins  - hvorki meira né minna. Skemmst er að minnast deilunnar sem fylgdi fjölmiðlafrumvarpinu og fagurgalans sem blaðamenn höfðu uppi um starf sitt og mikilvægi þess fyrir samfélagið. Frjálsir, öflugir og upplýsandi fjölmiðlar væru ein af fjórum grunnstoðum samfélagsins. Spurt er ; hvar voru hinir ágengu og upplýsandi blaða- og fréttamenn í aðdraganda þess ástands sem nú ríkir á Íslandi?  Á einum mánuði hefur Ísland hrunið nánast til grunna. Og nú hefur þegar komið í ljós að ýmsar bjöllur voru farnar að hringja sem gáfu til kynna að vá var í aðsigi og gáfu fjölmiðlafólki fulla ástæðu til að skoða stöðuna frekar og meta aðstæður gaumgæfilega. Gífurlegir hagsmunir voru í húfi. Hvað brást? Skýrslur voru tiltækar sem gáfu til kynna að ástandið var mjög alvarlegt. Hvar voru hinir upplýsandi rannsóknarblaðamenn, sem telja sig fjórða vald samfélagsins?  Hvers vegna gáfu þeir ekki almenningi viðvörun með upplýsandi umfjöllun?  Er ekkert gagn af íslenskum blöðum? Áttum við frekar að taka mark á erlendum dagblöðum ? Þau reyndust miklu nær því að meta stöðuna rétt. Eru íslenskir fréttamenn bara hæfir til að segja fréttir af atburðum sem þegar hafa átt sér stað? Hvernig stóð á þessari vanhæfni eða meðvirkni? Er hugsanlegt að hagsmunir íslenskra fjölmiðla skarist of mikið við persónur og leikendur í hinum dramatísku átökum sem þjóðin stendur frammi fyrir? Er ekki fullt tilefni fyrir íslenska fjölmiðlamenn til að skoða sína stöðu í ljósi atburða síðustu vikna? Þeir hafa brugðist hlutverki sínu með blindri þjónkun við eigendur sína og umráðamenn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband