5.6.2007 | 13:06
Framsóknarmaðurinn - tegund í góðu jafnvægi
Mér hefur ævinlega verið hlýtt til framsóknarmanna. Ég er alinn upp á framsóknarheimili og hef kynnst mörgum framsóknarmönnum . Þeir eru yfirleitt skemmtilegir - sérstaklega karlarnir. Þeir eru léttir í skapi enda eru alvarleg stjórnmálaleg spursmál ekki að angra þá. Þeir eru léttlyndir. Framsóknarmenn segja ekki hefðbundna brandara með pönslínu. Framsóknarmenn segja sögur. Gamansögur. Þær verða oft langar og vilja fara út um víðan völl - lengjast í miklum ættfræðipælingum - með viðkomu á mörgum bæjum og enda síðan eiginlega aldrei. Það hentar líka framsóknarmönnum að enda ekki sögurnar formlega. Halda öllu opnu ef eitthvað gott skyldi reka á fjörurnar.
Framsóknarmenn eru félagslyndir og hafa gaman af því að sitja fundi. Þeir hafa ekkert sérstaklega gaman af fundarefninu. Meira gaman af spjallinu í kaffihléinu. Í fari þeirra er pólitískt kæruleysi og léttlyndi sem helgast af því að stefnan eða hugmyndafræðin veldur þeim ekki áhyggjum. Ekki svo nauið. Það þykir hins vegar mikill kostur og gefur framsóknarmanni aukna þyngd ef hann hefur á hraðbergi eins og eitt öflugt ættjarðarljóð þegar við á. Þeir eru í hjarta sínu vissir um að Ísland er best. Hér er fallegast. Hér er fallegasta kvenfólkið og gáfuðustu karlmennirnir. Óþarfi að sækja eitthvert annað. Allt samstarf og samvinna við aðrar þjóðir er varasamt. Það eru ekki nema allra víðsýnustu framsóknarmenn sem í mesta lagi hrífast af Norðmönnum. Lengra verður ekki gengið. Við erum hin útvalda þjóð. Þeir eru fullvissir um að íslenskur landbúnaður er svo langbestur að það þarf ekki að ræða það frekar. Allt það jukk sem útlendingar hafa verið að éta gegnum aldirnar er óhollusta. Stórhættulegt og fullt af skít. Guð forði okkur frá því. Ég hef verið með norðlensku framsóknarfólki í Spánarferð og sú fjölskylda fór með fullar töskur af íslensku skyri og lambakjöti. Engin áhætta tekin. Og svo eru það dalirnir og fossarnir. Betra á dauðlegi heimurinn eigi.
Á upphafsárum sínum var Framsóknarflokkurinn einskonar pólitískur armur ungmennafélagshreyfingarinnar. Þá var þörf og not fyrir flokk eins og hann. Sjálfstæðisbaráttan í algleymingi og bændur í sóknarhug. En nú eru breyttir tímar. Ungmennnafélagshreyfingin er nánast ellidauð og Sambandið horfið, bændur orðnir örfáir og Framsóknarflokkurinn því kominn af fótum fram. Verkefnalaus. Útvegar þó dyggum flokksmönnum góða vinnu og stendur vörð um erfðagóssið. Þó er nóg til af framsóknarmönnum. Framsóknarmaður er hér samheiti yfir tegundina en ekki einungis þann þrönga hóp sem styður flokk með sama nafni. Framsóknarmenn eru í öllum flokkum og auðþekkjanlegir. Flestir eru þeir auðvitað í Vinstri grænum, en þeir eru líka fjölmennir í Sjálfstæðisflokknum. Fæstir eru sennilega í Samfylkingunni enda er hún sífellt að klifa á samvinnu við aðrar þjóðir af fullkomnu ábyrgðarleysi. Framsóknarmenn telja okkur auðvitað ekkert erindi eiga með skrælingjaþjóðum Evrópusambandsins. Þeim þjóðum sem um aldaraðir höfðu lifað hámenningarlífi á meðan við gerðum okkur það enn til dundurs að týna lýsnar hvert af öðru í dimmum og saggafullum torfkofum. Við þurfum ekkert að flytja inn erlenda ómennsku. Framsóknarmenn allra flokka eru þjóðernissinnaðir íhaldsmenn sem eiga auðvelt með að tala sig upp í funheita ættjarðarást á góðum degi. Hvað sem Framsóknarflokknum líður þá verða framsóknarmenn til á meðan land byggist. Í mér blundar framsóknarmaður.
Athugasemdir
Ég held að það sé hverjum manni nauðsynlegt að eiga innra með sér blundandi framsóknarmann. Hættan felst í því að hann vakni af blundinum.
Árni Gunnarsson, 5.6.2007 kl. 19:56
Nei INDI MINN! Hvað kom fyrir hárið á þér?
Alla rekst maður nú á í bloggheimum
Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 6.6.2007 kl. 15:36
Meriháttar skemmtileg og djúp skilgreining á ,,Framsóknarmanninum." í okkur öllum
inn við beinið. Já og velkominn Júlíus í bloggvinarhópinn!
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 7.6.2007 kl. 00:30
Júlli minn, það verður að friða þá eins og íslenska náttúru. Engin önnur þjóð í heiminum getur státað af þessari tegund manna. Ekki einu sinni ættbálkar Papúa Nýju Gíneu komast í hálfkvist við þá!
Pálmi Gestsson (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 07:29
Snilldarpistill! Ég hef nú lengi átt mér þann draum að framsóknarmenn hyrfu með öllu. En get alveg sæst á framhaldslíf þeirra, svona sem þessarar almennu tegundar sem þú lýsir. Ég er hins vegar fyrir löngu búin að fá mig fullsadda af flokknum þeirra við völd. Valdalausir framsóknarmenn eru bara krúttlegt fyrirbæri ;)
Ragnhildur Sverrisdóttir, 7.6.2007 kl. 09:57
Flottur Pistill :)
kv Þórunn Eva (dóttir Guggu Bjarna vinkonu snjólaugar)
Þórunn Eva , 15.6.2007 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.