Af þjóðrembu og andlegum vindverkjum


 

   Nú er mikið talað um að byggja þurfi nýtt Ísland.  Treysta gömlu gildin og horfa til þjóðlegra verðmæta. Halda á lofti því sérstaka og verðmæta sem við eigum og höfum misst sjónar á.  Þá er nauðsynlegt að leggja af þann barnalega þjóðrembing sem við höfum tamið okkur undanfarin gleðskaparár; Ísland er stórasta land í heimi. Þjóðremban er hættuleg og hefur átt sinn þátt í að leiða okkur á þann stað sem við erum á í dag. Þennan skelfilega stað. Miklu frekar eigum við að reyna að horfa með gagnrýniaugum á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna .

   Og hvað erum við? Ja,við erum  dugleg þjóð.  Heldur ekkert vitlausari en aðrir og sæmilega upplýst og menntuð. Og við eigum vissulega framúarskarandi fólk í einstökum greinum sem  jafnast á við það fremsta hjá öðrum þjóðum. En hjá okkur koma slíkir einstaklingar ekki fram nema á margra ára fresti  - og fáir - í fullu samræmi við fámenni þjóðarinnar. Þjóðremban var farin að telja okkur trú um að hér á landi væru hlutfallslega miklu fleiri snillingar en flest fjölmennari samfélög gætu státað af. Við værum einstök afburðaþjóð. Til dæmis um það var fólki var talin trú um að hver einasti jakkafataklæddur unglingspiltur með örlitla viðskiptamenntun væri fjármálaséní á heimsvísu. Við vorum ein gáfaðasta og hamingjusamasta þjóð veraldar. Og þeir sem ekki voru tröllvaxnir til höfuðsins hefðu afburða kosti á öðrum sviðum. Hér væri fallegasta kvenfólk í heimi og sterkustu karlarnir. Það væri íslenska loftið sem væri svo heilnæmt og íslenska fæðið gerði okkur að ofurmönnum. Íslenskur matur væri sá eini sem boðlegur væri og allt útlenskt fæði baneitrað óæti. Við eigum enga samleið með öðrum þjóðum, við erum svo sérstök - sennilega svo miklu fremri á flestum sviðum. Við erum eyland í fleiri en einum skilningi.

   Það er ekki þannig. Hættum þessum fíflaskap. Sumt hefur tekist ágætlega í samfélaginu okkar, en annað miður. Sumt mjög illa. Við Íslendingar erum bara venjulegar manneskjur. Ekkert hlutfallslega stórkostlegri en þær nágrannaþjóðir sem eru skyldastar okkur.  Hvað ætti susum að hafa gert okkur að slíkum ofurmönnum ?

   En við eigum fallegt land sem orkar sterkt á alla sem kynnast því.  Jafnvel þótt flest náttúrufyrirbrigði sem finnast á landinu og þykja fallegust , séu til annarsstaðar á jörðinni þá er óhætt að fullyrða skrumlaust að Ísland er að mörgu leyti einstakt.  Á góðum degi er Ísland paradís á jörðu. Við eigum auðvitað að vera stolt af því og umgangast það af virðingu.

   Nú þegar þjóðin er að taka sig saman og rísa upp á lappirnir eftir alvarlega brotlendingu þá fer ekki hjá því að hún leggist í einhverkonar endurmat á því sem skiptir máli og er henni raunverulega einhvers virði. Reyna hugsanlega að skapa sjálfsmynd sem gæti verið nær raunveruleikanum en sú sem við höfum haldið á lofti. Vekja athygli á þjóðlegum verðmætum. Kannski er ekki um svo auðugan garð að gresja. Hér eru hefðir fáar og ekki stórkostlegar þegar borið er saman við grónar og menningarþjóðir.  Við eigum bókmenntirnar. Þær byggingar sem við getum sýnt erlendum gestum okkar eru engar glæsihallir. Hrörlegu torfbæirnir eru kannski vitnisburður um það sem við getum verið stoltust af; að hafa þraukað í þessu erfiða landi í ellefu hundruð ár og tekist að byggja upp þjóðfélag sem stenst þokkalega samanburð við nágrannaríkin. Við höfum sigrast á erfiðri náttúru og haldið lífi. Það er okkar stóri sigur. Og síðast en ekki síst; við eigum íslenska hestinn.  Hann er einstakur. Gleðilegt ár!!

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Gleðilegt ár. Þörf ádrepa. Vil þó benda á að "hrörlegu torfbæirnir" eru einmitt þjóðargersemi. Einsog svo margt sem eldist voru þeir eittsinn glæsilegir en skortur á viðhaldi og vanefni komu víðast niður á þessari byggingarlist. Ég kom á Forum Romanum í fyrra haust og ansi var það nú hrörlegt þó maður gæti með hjálp margmiðlunarefnis séð þetta glæsilega fyrir sér einsog á tímum Sesaranna. Þessi hluti Rómar var kallaður Rom Antiqua þegar fyrrverandi afkomendur germanskra þræla komu þangað aftur frjálsir menn eftir margar aldir og sáu þetta allt saman fyrir sér í hyllingum og því eðlilega dregið af þessum rústum hugtakið "rómantík" sem við notum á allt mögulegt í dag. Ég aðhyllist semsagt einhverskonar torfbæjartík!

Gísli Ingvarsson, 5.1.2009 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband