Reykingar og hundaskítur

  

  

 

   Stundum eru hlutir - sem eru í eðli sínu mjög líkir - metnir á gjörólíkan hátt. Nú þegar reykingabannið er gengið í gildi rifjast upp ýmsar sennur sem ég hef tekið við reykingafólk. Ein var af því tilefni að við sátum eitt sinn félagar inni á kaffistofu og enginn okkar reykti  -  loftið í herberginu því hreint og tært. Síðan bætist maður í hópinn og fær sér kaffibolla og gerir sig líklegan til að fá sér sígarettu. Þá fórum við þessir reyklausu að malda í móinn og benda viðkomandi á að það sé engin sanngirni í því að við fjórir þurfum að líða fyrir þennan ósið hans. Hér mundi allt fyllast af reyk og ólykt sem við kærðum okkur ekkert um.  Ég benti honum á að það hefði ekki þótt við hæfi ef hann hefði komið inn og byrjað að leysa vind án afláts og ekki hætt fyrr en andrúmsloftið væri orðið óbærilegt. Þessi samlíking fannst vini okkar alveg út í hött. Ég benti honum á að sennilega væri viðrekstrargasið ekki nærri eins óhollt og tóbaksreykurinn - þó ég væri svosem ekki að hvetja hann til að taka frekar upp þann sið.  Þeir sem malda í móinn núna munu innan fárra vikna þagna og eftir ár eða svo verðum við búin að gleyma því að eitt sinn voru leyfðar reykingar á veitingastöðum.

   Hundum hefur fjölgað mikið í þéttbýli. Hundar af ýmsum fágætum og framandi kynstofnum eru mjög vinsæl gæludýr nú um stundir.  Í sumum tilfellum hefur fólk greitt talsverða fjármuni fyrir dýrin og  veitir þeim mikla athygli og á mörgum heimilum eru þeir komnir fremst í forgangsröðina  - fram fyrir börnin. Þeim lýðst margt sem okkur mannfólkinu er yfirleitt ekki leyfilegt. Nágranni minn á t.d. hund sem hafður er úti í garði geltandi tímunum saman svo maður getur varla haldið uppi samræðum inni hjá sér. Og stundum bregður hann sér yfir í garð til mín til að skíta. Hvers vegna lýðst þetta hjá hundum en ekki mönnum? Ég hef hugsað um það í fullri alvöru að stökkva út í garð núna eitt góðviðriskvöldið og  öskra og garga í svona klukkutíma og bregða mér svo yfir í garðinn hjá nágrannanum og leysa niður um mig og skíta.  Það er hundur í mér.

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

 Hvurslags hundaeigandi er þessi nágranni þinn? ertu búinn að ræða við hann? Ég er sjálf með 10 ára gamla geltna tík, og leyfi henni ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera útí garði með sitt gelt, ef hún byrjar þá er hún umsvifalaust rekin inn. Svo þetta með skítinn, ef hundurinn er laus og fer yfir í þinn garð að skíta, þá er bara að hafa samband við heilbrigðiseftirlitið.

Guðrún Sæmundsdóttir, 2.6.2007 kl. 19:45

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

Hann Drakúla litli varð alveg miður sín þegar ég las fyrir hann pistilinn þinn. Hann er mjög niðurdreginn yfir því að ég hafi valið að lesa svona hryllingssögu fyrir hann svona rétt fyrir svefninn. Ég var hálfa nóttina að hugga hann. Sagði honum að illa upp aldi hundur nágrannans væri bara svona óhamingjusamur. Þá vildi hann fara strax og hugga hann. Um miðja nótt! Ég gat rétt fengið hann ofanaf því með miklum fortölum.

Ekki var hann síður miður sín yfir að heyra að þú værir kannski öskrandi og skítandi um allt hverfið. Ég sagði honum að þú byggir langt í burtu frá okkur - er það ekki annars örugglega rétt?

Viðar Eggertsson, 5.6.2007 kl. 07:37

3 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Góður pistill hjá þér

Tómas Þóroddsson, 5.6.2007 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband